Byrjunin á einhverju

Hver þarf á öðru bloggi að halda? Hvað þá hlaðvarpi? Er Twitter ekki nú þegar nógu slæmur staður? Hvað er Miklihvellur og hverjir standa á bak við þetta guðlast?

Vonandi kemur þú frá þessari grein með svörin við þessum spurningum og fleiri. Ef ekki, þá mun tíminn leiða svörin út í dagsljósið fyrir okkur. Flókin svör eiga það til að vera feimin.

Framtíð fjölmiðla

"Fjölmiðill" er frábært orð. Í raun svo gott að eins og gott vín hefur orðið elst vel og er sterkara núna heldur en þegar það var búið til. Hugtakið, sem varð til á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar útvarpsþættir voru að verða til, er ætlað að vísa í þann fjölda af einstaklingum sem þessir nýju miðlar - prentverkið og útvarpið - gátu náð til.

En fjölmiðlar árið 2019 ná ekki bara að ná til fjöldans, heldur gera þeir það í gegnum fleiri tegundir af miðlum heldur en áður. Sannur fjölmiðill nær í dag til fólks með blöðum, bloggum, og hlaðvörpum, myndböndum, jörmum og kommentum sem þeir deila á samfélagsmiðlum og fréttasöfnurum eins og Reddit eða í gegnum hefðbundnari miðla eins og útvarp eða sjónvarp.

Hugsjónamiðlar hafa síðan tekið skrefið inn í listirnar og blanda saman krafti fjölmiðla við tímalaust eðli tónlistar eða kvikmynda. Þeir miðlar sem kunna að nýta hugbúnað hafa svo áður óséða innsýn inn í öldur samfélagsins og nýta sér það til þess að framleiða efnið sem fólkið vill. Ef þú efast getur þú spurt Netflix.

Internetið lýðræðisvæddi fjölmiðla. Hver sem er getur bloggað og náð til þúsunda. Hver sem er getur hlaðvarpað og náð til milljóna. Þú ert einu tweeti frá því að verða viral og Youtube myndbandi frá því að verða heimsfræg/ur (ekki gott markmið).

Stórir fjölmiðlar eru að fremja fjöldasjálfsvíg og míkrófjölmiðillinn - einstaklingurinn eða hópur slíkra - er að ýta undir þessa þróun. Framtíð fjölmiðla er meira framboð heldur en nokkru sinni. Úrval ofan á úrval af allskonar röddum með fjölbreyttan bakgrunn og áhugamál sem ná að blómstra vegna þess að eftirspurn eftir efni mun halda áfram að aukast svo lengi sem tækninýjungar halda áfram að lengja frítíma okkar.

Miklihvellur sem fjölmiðill

Miklihvellur er fjárfestingarfélag og fjölmiðill. Við erum ekki fjölmiðill í þeirri skilgreiningu að við ætlum okkur að ná til allra Íslendinga eins og MBL og Vísir, heldur ætlum við okkur að standa fyrir ákveðinni tegund af orðræðu sem frjálst fólk má kjósa að kunna að meta eða ekki. Vitaskuld vonum við að sem flestir taki þessari orðræðu fagnandi, en það er ekki markmiðið.

Fjölmiðill endar alltaf á því að vera vettvangur (e. platform) fyrir raddir. Hið raunverulega vald þess sem rekur fjölmiðil er hverjum hann lánar þennan vettvang. Við ætlum okkur að nota bloggið okkar, hlaðvarpið og samfélagsmiðla til þess að varpa ljósi á bjartsýna og jákvæða einstaklinga sem eru að gera uppbyggjandi og aðdáunarverða hluti á Íslandi. Svo einfalt er það.

Samhliða því að skrifa sjálfir greinar um kúltúr, samfélög, kóða, líffræði, kvíða, listamannanöfn, þakklæti, sjónarhorn og hallatölur - svo eitthvað sé nefnt - munum við leita uppi einstaklinga sem falla inn í fyrrnefnt mót og reyna að fá þá til þess að skrifa um það sem drífur þá áfram. Hinir miðlarnir munu svo koma til með að byggja ofan á það sem gerist inni á þessu bloggi. Öllum póstum mun fylgja hlaðvarp þar sem kafað er dýpra ofan í umfangsefnið og það nálgast frá öðrum sjónarhornum. Á Twitter munum við svo deila gullmolum sem við rekumst á í rannsóknarvinnunni.

Við munum leggja áherslu á gæði umfram magn, en til að byrja með stefnum við á að gefa út nýtt efni á tveggja vikna fresti. Vonandi munum við komast á þann stað að geta gert þetta vikulegt.

Miklihvellur sem fjárfestingarfélag

Þetta er hinn upprunalegi tilgangur Miklahvells ehf. Eigendur félagsins eru Jón Hilmar Karlsson og Kjartan Þórisson (ég). Í 5 ár hef ég unnið við að smíða hugbúnað, en síðastliðin tvö ár höfum við unnið saman að öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Miklihvellur á ráðandi hluta í tæknifyrirtækinu Tímatal ehf. sem rekur tímabókunarkerfið Tímatal og markaðstorgið Noona.

Við vonum að Miklihvellur geti verið eins óháður fjölmiðill og hægt er. Fjölmiðlar enda þó alltaf á því að vera háðir eigendum sínum og markmiðum þeirra. Ég leyfi mér að efast þegar fjölmiðlafólk heldur öðru fram. Það minnsta sem við getum gert er að vera heiðarlegir varðandi stöðu okkar, fortíð og tengingar. Ef við getum auglýst Noona og Tímatal á heiðarlegan hátt í gegnum Miklahvell, þá munum við gera það. Það þarf eftir allt saman að sækja þetta brauð.

Persónulegar nótur

Við Jón erum með nokkur persónuleg markmið sem við viljum deila með þeim ykkar sem ákveða að fylgja okkur frá byrjun.

Í fyrsta lagi viljum við taka meiri ábyrgð á hugsunum okkar og áhugamálum með því að deila þeim með stærri hóp af fólki. Ábyrgð fylgir áhætta og áhættu fylgir vöxtur. Í versta falli segjum við eitthvað ótrúlega heimskulegt. Ef svo, þá viljum við heyra að við séum á villigötum svo að við getum lært af því. Í besta falli segjum við eitthvað aðeins minna heimskulegt en horfum samt til baka eftir 5 ár með skýrara sjónarhorn og sjáum hvað hefði getað farið betur. Í því er einnig fólginn lærdómur.

Í öðru lagi viljum við æfa okkur í skrifuðu og töluðu máli, ásamt því að gefa okkur afsökun til þess að lesa enn meira og víðar. Við trúum því innilega að lestur, skrif og samræður séu uppspretta alls hins góða sem mannleg tilvera hefur upp á að bjóða. Þessi lisform eru okkur öllum aðgengileg, en við þurfum að leggja okkur fram við að rækta þau til þess að geta notið ávaxta þeirra. Það að tjá sig opinberlega er skotheld leið til þess að þróa þessa hæfileika ef þú ert með opinn hug og ert tilbúinn til þess að læra.

Í þriðja og seinasta lagi viljum við kynnast fleiri Íslendingum sem eru að gera sitt besta á hverjum einasta degi. Þetta er lítið land og við ættum öll að þekkjast betur. Ef þú vilt fá vettvang til þess að koma einhverju á framfæri sem heldur þér vakandi á nóttunni, sendu okkur línu. Ef þú þekkir einhvern sem er að gera áhugaverða og spennandi hluti sem er ekki að fá nægilega mikla umfjöllun, sendu okkur línu! Lærum af hvort öðru og deilum þekkingu og upplifunum.

Ef að við náum bara einu af þessum markmiðum er það réttlæting á öllu verkefninu. Takk fyrir að taka þátt með því að lesa þetta og það sem kemur í framhaldinu af þessu.

Að lokum

Ísland er að blómstra. Lista- og menningarsenan er lifandi sem aldrei fyrr, sama hvað "í mína daga" fólk hefur að segja. Sprotasenan er að vaxa og dafna. Það er mikið af fjármagni að flæða í áhugaverð verkefni hvert sem maður lítur. Kjaradeilur og illa fjármögnuð flugfélög eru ekkert nema nauðsynlegir fylgikvillar þess að fólk út um allt land er að reyna að lifa betur í dag en í gær.

Við fæðumst öll með þörf til þess að láta gott af okkur leiða. Við viljum hafa áhrif á annað fólk með gjörðum okkar. Við erum samfélagsverur og það eru góðar og gildar (þróunarkenningarlegar) ástæður fyrir því. Við viljum að fólk heyri hvað við höfum að segja og við þráum að það fái hljómgrunn.

Samfélagsmiðlar hafa fengið slæma útreið að undanförnu og þeir eiga það skilið. Við eigum að deila meira af sjálfum okkur með hvort öðru en það er mikilvægt að gera það á jákvæðan hátt og pæla minna í likes og follows. Samhliða þessu þurfum við að henda í mute á þá sem eru að hata og slökkva á okkar innri hatara.

Ég held að Ísland sé á tímamótum. Ungt fólk er að fá meira frelsi til þess að vera max-útgáfan af sjálfum sér. Fólk er að átta sig á því að það er nettara að hrósa en að dissa. Eins og alltaf eigum við langt í land, en þróun er þróun og þróun tekur tíma.

Hinn eini sanni miklihvellur byrjaði þetta allt saman fyrir tæplega 14 milljörðum ára og gerði okkur öllum kleyft að hugsa, hata og elska. Vonandi getur okkar eigin Miklihvellur markað upphafið að einhverju svipuðu, á miklu minni skala auðvitað.


Hérna er fyrsta hlaðvarpið þar sem ég og Jón ræðum það sem þú varst að lesa og köfum dýpra ofan í framhald Miklahvells.

Linkur á podcast

Ef þú hefur áhuga á að heyra meira af þessum nótum eða svipuðum, þá getur þú fundið okkur og fylgt á Twitter og uppáhalds Podcast appinu þínu.

S/O á þig ef þú deilir þessu með besta vini þínum.