Öll þróun á sér stað fyrir tilstilli lærdóms, hvort sem það er persónuleg þróun einstaklings, þróun samfélags eða þróun lífveru. Alveg eins og genamengi lífvera þróast vegna lærdóms forvera sinna þróast þinn innri maður vegna lærdóms þíns fyrra sjálfs.

En fyrir tilkomu mannsins var lærdóm einungis hægt að finna með einni aðferð: framkvæmd. Yfir langan tíma var eina leiðin að komast að því hvort það væri hættulegt að hoppa niður af fjalli, að hoppa niður af fjalli. Ef þekkingin var nægilega mikilvæg fann hún sér leið í genamengi okkar með því að gera okkur hrædd (lofthræðsla) eða fylla okkur af viðbjóði (vond lykt af rotnu kjöti).

En þegar við urðum það sem við erum í dag, hinn viti borni maður, breyttist allt. Lærdómur var ekki lengur bundinn við framkvæmd, heldur gátum við lært hvort af öðru. Við gátum lært af mistökum annarra án þess að framkvæma þau sjálf. Við gátum crowdsource’að þekkingu.

Það sem gerði okkur svo á endanum að leiðandi lífveru jarðar, og bjó til það samfélag sem við lifum í í dag, var þegar við fundum leið til þess að gera lærdóm ónæman fyrir tíma og rúmi. Sú staðreynd að ég get lært herkænsku af konungum rómaveldis, lífspeki frá heimspekingum Grikkja, og stærfræði frá bæði Newton og Einstein gerði mannkyninu kleyft að gera lærdóm sífellan á milli kynslóða. Þekking tapaðist ekki lengur.

Fyrsta tólið sem við notuðum til að miðla þekkingu á milli kynslóða voru sögur. Sögur eru enn það tól sem manneskjur tengja hvað best við í dag. Sögur kenndu okkur að vera þolinmóð, að deila með náunganum og sína góðmennsku. Sögur festast líka betur í huga okkar sem gerir það að frábæru tóli til þess að dreifa vitneskju án þess að skrifa þær niður.

Í kjölfar sagna komu bækur, og með þeim gátum við loks geymt vitneskju í sínu sannasta formi. Sögur gátu breyst með tíð og tíma en blek gerði það ekki. Bækur voru fyrst um sinn minjar sem áttu einungis heima á bókasöfnum. Þannig var það þar til við áttuðum okkur á því að við gátum prentað, og þá voru bækur orðin einstök munaðarvara.

Hægt og rólega batnaði tæknin okkar og þekking varð aðgengilegri og aðgengilegri. Það var þó ekki fyrr en fyrir tilkomu veraldarvefsins að öll heimsins bókasöfn voru okkur aðgengileg með fáeinum smellum.

Einstaklingurinn

Við lærum á tvo mismunandi vegu. Við getum lært með því að fræðast um lærdóm annarra, eða við getum lært með því að gera og prófa. Þessar tvær leiðir til að læra kenna okkur þó mjög mismunandi hluti.

Með því að lesa, horfa á myndbönd eða mæta á fyrirlestra fræðumst við um lærdóm annarra. Þetta er gífurlega skilvirk leið til þess að læra, en með því að beita þessari aðferð þarf einstaklingurinn ekki að endurtaka mistök annarra eða stýra langri og strangri rannsókn sem gaf kom þessum tiltekna sannleika á yfirborðið. En þetta er þó ekki nauðsynlega öflugasta leiðin til að læra, þar sem lærdómurinn meitlast ekki alltaf í skilning. Allir þeir sem hafa gengið í gegnum skóla kannast við þá upplifun.

Þó svo að margt geti verið lært með miðlun þekkingar, er ákveðin tegund lærdóms sem er okkur einungis aðgengilegt með gera og prófa sjálf. Það tekur mun lengri tíma að læra með því að gera, en sú þekking sem opnast fyrir manni í gegnum gjörðir byggist á skilningi, og varir því oft á tíðum mun lengur og mun dýpra í manneskjum. Mistök eru þar helsta tólið sem við lærum af, en við eigum það flest sameiginlegt að vilja ekki gera sömu mistökin tvisvar.

Sú þekking sem við öflum okkur með framkvæmd styrkist svo í sífellu með ítrunum. Ítranir, það að gera sama hlutinn aftur og aftur, hvetur til mistaka. Því fleiri ítranir sem við gerum, því fleiri mistök gerum við og því fljótar lærum við. Þekking sem við öflum okkur með ítrunum er oft á tíðum sú þekking sem verður okkur eðlislæg. Dæmi um það er að lesa eða skrifa.

Það að framkvæma er því skiljanlega mjög mikilvægt. Það er ein af lykilástæðum þess að við ákváðum að gefa út Miklahvell. Við Kjartan sjáum Miklahvell fyrir okkur sem tól sem mun auka lærdóm okkar svo um munar. Okkur langaði að sjá hvort sífelld skrif um viðfangsefni myndi knýja áfram lærdóm um viðfangsefnin og gera okkur að betri rithöfundum. Okkur langaði að gefa út skoðanir okkar svo aðrir gætu staðfest það ef hugsunarháttur okkar væri á réttri leið, eða leiðrétt okkur ef við værum á villigötum.

Lærdómur fyrir lífsgæði

Því fyrr sem við lærum eitthvað, því lengur getum við nýtt okkur lærdóminn og byggt ofan á hann. Það er líklega þess vegna sem krakkar eru settir í skóla um leið og heili þeirra er orðinn meðtækilegur fyrir mikilvægustu tólum samtímans eins og stærfræði, skrift og lestri.

Lærdómur skapar sérstöðu. Eftir því sem við lærum meira söfnum við fjölbreyttari verkfærum í verkfærakassann okkar. Við getum lært ákveðið viðfangsefni gífurlega vel, og orðið sérfræðingar. Við getum líka lært grunnþætti margra mismunandi viðfangsefna, og orðið svokallaðir generalistar. En eftir því sem við lærum meira, komum við okkur í smærri og smærri hóp einstaklinga sem kann og veit það sama og við. Með lærdómi getum við að lokum orðið að einu manneskju veraldar sem hefur okkar sérstaka vopnabúr.

Lærdómur getur gefið okkur hugmyndir um svör við flestum af dýpstu spurningum okkar allra. Hvernig verð ég hamingjusamur? Hvað þýðir það að vera góð manneskja? Hvernig græði ég pening? Hvernig lifi ég friðsælu lífi? Fjöldi spekinga hafa stúderað þessar spurningar og það eru mörg mismunandi svör þarna út. Það er svo undir okkur komið að finna þann lærdóm sem á best við um okkur og nýta hann í raunveruleikanum.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að sífelldur lærdómur er hluti af gildum okkar hérna hjá Miklahvell. Ef við erum sannir því gildi, og höldum í sífellu áfram að leita að þekkingu (þá einna helst með lestri og framkvæmd) er aldrei að vita hverskonar lærdóm við munum koma til með að sanka að okkur, og hvernig það mun koma til með að hafa áhrif á líf okkar.